Adam Stefánsson keppir í bifvélavirkjun fyrir Íslands hönd á Evrópumótinu í Herning í Danmörku. Þetta er í fyrsta sinn sem bifvélavirki fer út á Euroskills. Hann var nokkuð brattur í lok fyrsta keppnidagsins og sagðist líða afar vel með frammistöðuna. „Ég var um hálftíma að ná áttum og í fyrstu fannst mér allt í rugli, en svo náði ég mínu striki og allt gekk vel. Mér leið mjög vel í keppninni,“ segir Adam.
Hann segir frábært að dvelja í Lalandia í Billund, þar gista keppendur í sumarhúsum og njóta sín vel. „Þetta er lúxus!“
Adam lærði í Borgarholtsskóla og lauk námi 2021 og var valinn til að fara á Euroskills eftir að hafa þreytt próf hjá Iðunni fræðslusetri, ásamt ríflega 10 öðrum bifvélavirkjum. Í þeim prófraunum sýndi hann að hann býr yfir nákvæmnni og léttri lundu eða skemmtilegu æðruleysi eins og hann sjálfur segir frá. Hann segist oftast ekki kippa sér mikið upp þegar eitthvað óvænt eða krefjandi kemur upp. „Það sem gerist, það gerist!“ Segir hann um sína lífsreglu eða mottó.
Hann vinnur hjá Bílaverkstæði Högna í Hafnarfirði og keypti sína fyrstu bifreið aðeins þrettán ára gamall. Árið áður hafði hann verið sendur í sveit í Berjanes í Landeyjum á Suðurlandi. „Þar var mikið af bílum og ég fékk að fylgjast með og fikta í þeim, eftir það var ekki aftur snúið. Ég kolféll fyrir þessu bílastússi. Ég keypti mér Toyota Corolla bíl til þess að vinna í og ég á hann reyndar enn þann daginn í dag.“