Ezekiel Jakob Hanssen keppir í pípulögnum fyrir Íslands hönd á Evrópumótinu í Herning í september í Danmörku.
Ezekíel er úr Kópavogi og lærði pípulagnir í Tækniskólanum.
Meistari hans er Rúnar Helgason hjá Lagnaþjónustu Suðurnesja.
Í júní fóru Gunnar Ásgeir Sigurjónsson þjálfari hans og Ezekiel í þriggja daga þjálfunarbúðir hjá Grohe í Þýskalandi til að undirbúa hann fyrir Evrópumótið.
„Ég hef fengið að vinna mikið í faginu og nýt góðs af því en þjálfunin sem ég fékk þarna úti hjá Grohe var mjög góð reynsla og góð viðbót og ég óska þess að það verði eitthvað í líkingu við þetta til á landinu fyrir aðra sem vilja læra eitthvað nýtt og vinna í þessu fagi,“ segir hann.
Pípulagnir heilluðu Ezekiel vegna þess hve fagið er fjölbreytt og hann vill hafa líf og fjör í kringum sig. Hann hefur einnig mikinn áhuga á matreiðslu og nýtur þess að elda fyrir vini og fjölskyldu.