Markmiðið að fjölga keppendum jafnt og þétt
„Þessi keppni er gríðarlega flott og vel skipulögð. Þegar við mættum hingað á svæðið var nánast ekkert sem út af stóð hjá Dönunum,“ segir Georg Páll Skúlason, formaður Verkiðnar og lykilmaður í undirbúningi og skipulagningu fyrir íslenska hópinn á EuroSkills.
Georg er forsvarsmaður íslenska liðsins gagnvart keppninni og heldur utan um allar skráningar, bæði fyrir keppendur, experta og fylgdarlið. Hópurinn telur að þessu sinni 41 einstakling.
Fimmta sinn sem Ísland tekur þátt
„Þegar kemur að keppninni sjálfri þá sinni ég meðal annars fundarhöldum. Til dæmis var hér aðalfundur WorlSkills Europe-samtakanna, sem tók allan miðvikudaginn. En svo er ég til taks fyrir allan hópinn að greiða úr þeim málum sem upp koma. Í svona keppni er alltaf eitthvað smávægilegt sem kemur upp og þarf að leysa úr.“
Georg hefur verið í stjórn Verkiðnar frá 2010 en tók við sem formaður 2017. Hann fór í sína fyrstu keppni 2018. Eftir heimsfaraldurinn fór hann svo aftur út 2023. „Þetta er þess vegna þriðja keppnin sem ég kem að en þetta er í fimmta sinn sem Ísland tekur þátt í EuroSkills,“ útskýrir hann.
Yfirlýsing um stuðning við verkmenntun
Í Herning mun Georg Páll einnig sitja ráðherrafund mennta- og barnamálaráðherra Danmerkur sem kynnir yfirlýsingu sem menntamálaráðherrar úr gjörvallri Evrópu munu undirrita sem hverfist um stuðning við verkmenntun.
Viljum vaxa og dafna
Aðstæður í Herning eru sérstaklega góðar að mati Georgs. Engin stór mál hafi komið upp, enda vinni allir að því sameiginlega markmiði að láta hlutina ganga eins og best verður á kosið.
Ísland á 13 keppendur að þessu sinni og hafa þeir aldrei verið fleiri. Georg segir að keppendum hafi fjölgað um tvo til þrjá í hvert sinn sem Ísland hefur tekið þátt. „Við viljum auðvitað sem flestar greinar inn. Við erum með 22 greinar á Minni framtíð. Í raun og veru hafa allar þessar keppnisgreinar möguleika á að koma. Markmiðið okkar er að stækka jafnt og þétt og smita áhugann yfir á aðrar greinar. Það sama gildir um keppnina heima; hún vex í hvert sinn.“
Glæsilegir fulltrúar iðn- og verkgreina
Georg segir reynslu af keppni sem þessari afar mikilvæga og smám saman bætist í reynslubankann. „Það er aukinn lærdómur dreginn af hverri keppni og bætt í undirbúninginn. Núna erum við til dæmis að sinna andlegum undirbúningi með myndarlegum hætti, með aðstoð sálfræðings. Það er gífurlega góð og mikilvæg viðbót,“ segir hann og bætir við að keppnishópurinn í ár sé afar samheldinn og flottur. Um sé að ræða glæsilega fulltrúa íslenskra iðn- og verkgreina.