„Þetta er frábær hópur á alla vegu“
„Liðsstjóri hugsar um hag keppenda og gengur úr skugga um að hlustað sé á rödd þeirra. Ef eitthvað kemur upp á þá tek ég það fyrir á fundum svo stjórnendur geti gripið í taumana. Á sama tíma er ég eins konar mamma þeirra, á þeim tíma sem þau eru hérna.“
Svona lýsir Sigurður Borgar Ólafsson, liðsstjóri íslenska hópsins á EuroSkills, hlutverki sínu. Spurður hvað hann eigi við með að hann sé eins konar mamma þeirra svarar Siggi, eins og hann er kallaður, því til að hann veki keppendur á morgnana, fylgi þeim í morgunmat, rútu og svo í gegnum allan keppnisdaginn. „Það liggur við að ég breiði yfir þau fyrir svefninn,“ segir hann glaður í bragði.
Þakklátur fyrir traustið
Siggi er afar þakklátur fyrir að vera treyst fyrir þessu hlutverki. „Þetta er ofsalega skemmtilegt. Að sama skapi eru dagarnir langir. Ég fer á fætur klukkan fimm og fer að sofa rétt fyrir miðnætti. Ég geng um 30 kílómetra á dag – eða strunsa réttara sagt,“ segir hann og lítur á úrið sitt.
Siggi er framleiðslumaður og keppti á EuroSkills 2018. Hann þekkir því á eigin skinni hvernig er að taka þátt í svona keppni. „Þetta er svo miklu stærra en fólk gerir sér grein fyrir. Ég reyndi að segja þeim það fyrir keppnina en það var ekki fyrr en þau mættu sem þau gerðu sér grein fyrir stærð og umfangi þessarar keppni,“ útskýrir hann.
Samheldinn hópur
Hópurinn er frábær á alla vegu að sögn Sigga, þrátt fyrir að einstaklingarnir séu afar ólíkir innbyrðis. „Hér eru bæði miklir extrovertar en líka miklir introvertar. Það eru forréttindi að fá að halda utan um svona góðan hóp. Þau eru ofsalega samheldin, þrátt fyrir að einstaklingarnir séu mjög ólíkir.“ Hann bætir við að mótlætið í keppninni, áskoranirnar, sé eitthvað sem þau eiga öll sameiginlegt að þurfa að glíma við. „Þau hafa þannig styrk hvert af öðru. Það getur verið gott að tala við einhvern sem skilur sársaukann sem fylgir því að taka þátt í svona keppni.“