Hvað er EuroSkills?

EuroSkills er Evrópumót iðn- og verkgreina. Á mótinu leiðir ungt fólk í iðnaði úr allri Evrópu saman hesta sína og keppir í færni í sinni iðngrein. Allir keppendur eru 25 ára eða yngri. Að þessu sinni fer mótið fram í Herning í Danmörku, dagana 10. - 12. september. Opnunarhátíð EuroSkills fór fram 9. september og mótinu líkur með pomp og prakt laugardaginn 13. september með verðlaunaafhendingu.

Keppnin hefur verið haldin frá árinu 2008 en að jafnaði er EuroSkills haldið annað hvert ár en að þessu sinni er búist við um 100 þúsund gestum.

Aldrei fleiri keppendur frá Íslandi

Keppnisgreinarnar í ár eru 38 talsins en keppendur telja um 600. Ísland hefur aldrei átt fulltrúa í fleiri keppnisgreinum en þeir eru 13 talsins. Auk þeirra taka 14 íslenskir expertar þátt í mótinu en það eru hvoru tveggja þjálfarar keppenda og dómarar í keppninni. Þeir fá takmörkuð samskipti að hafa við sína keppendur meðan keppni stendur. Flestir keppendur í íslenska hópnum hafa æft af krafti í allt sumar en sumir hófu æfingar fyrir tæpu ári. Íslensku keppendurnir hafa margir hverjir áunnið sér keppnisrétt á EuroSkills með framúrskarandi árangri á Íslandmótinu eða í öðrum keppnum.

Á keppnissvæðinu í Herning eru 12 keppnishallir. Stöðugur straumur grunnskólanema er í hallirnar, ekki ósvipað því sem tíðkast á Íslandsmóti iðn- og verkgreina (Mín framtíð) sem haldið er í Laugardalshöll. Á keppnissvæðinu kynna fjölmörg fyrirtæki sem tengjast iðn- og verkgreinum starfsemi sína.

Fjölmargir fylgja íslenska hópnum

Íslenski hópurinn telur 41 í heildina en auk keppenda og experta eru með í för liðsstjóri, skipuleggjendur, ábyrgðarmaður, þriggja manna fjölmiðlateymi, aðstoðarmenn experta og sálfræðingur. Flestir í hópnum dvelja í góðu yfirlæti í LaLandia, sem er í um þriggja kortera akstursfjarlægð frá Herning. Dagarnir eru langir á Euroskills og mikilvægt að hafa góða aðstöðu til að hvíla lúin bein.

Fjölmargir íslenskir gestir leggja leið sína á keppnina að þessu sinni. Fulltrúar iðnskóla og stéttarfélaga eru áberandi og auk fulltrúa félaga og samtaka sem tengjast iðn- og verkgreinum. Þá eru ótaldir vinir og fjölskyldumeðlimir keppenda og almennt áhugafólk um iðn- og verkgreinar.

Previous
Previous

Markmiðið að fjölga keppendum jafnt og þétt

Next
Next

Hvaða keppendur eru á EuroSkills 2025?