Brakandi stemning í Herning
Fyrsti keppnisdagur á EuroSkills 2025 í Herning gekk vel fram í gær. Það er óhætt að segja að dagarnir séu langir og strangir hjá íslenska landsliðshópnum. Ræs er klukkan 5.20, morgunmatur kl. 6 áður en haldið er í rútu frá Lalandia kl. 7. Komið er á keppnissvæði í Herning kl. 8.10 og keppni byrjar á slaginu kl. 9. Í gær luku flestir keppendur fyrsta keppnisdegi kl. 18.30 en síðustu keppendur kláruðu kl. 20. Það var því þreyttur landsliðshópur sem lagðist á koddann í Lalandia í gærkvöldi.
Keppendur staðið sig með sóma
„Það er brakandi fersk stemning hjá okkur þrátt fyrir mikið álag og langa daga,“ segir Sigurður Borgar Ólafsson, liðsstjóri íslenska landsliðsins. „Keppendur hafa staðið sig með sóma og ekkert komið upp á sem hefur þurft að bregðast við. Mitt hlutverk sem liðsstjóri er að halda utan um hópinn, stilla spennustigið rétt og hjálpa til eftir föngum,“ segir hann.
Gleðskapur í miðbæ Herning
Ætla má að hátt í 200 Íslendingar séu núna staddir í Herning til að fylgja keppendum eftir. Má þar nefna fjölskyldur, þjálfara, kennara og aðra sem tengjast iðn-, tækni- og verknámi á Íslandi. Sú hefð hefur myndast á EuroSkills keppnum að áhagendur íslenska landsliðsins hafa komið saman í gleðskap í boði Verkiðnar. Engin undantekning er á því að þessu sinni og hefur Verkiðn blásið til fagnaðar í dag á veitingastaðnum Fox and Hounds í miðbæ Herning. Má gera ráð fyrir góðri stemningu í gleðskapnum, áður en lokakeppnisdagurinn hefst á morgun.