Herlegheitin hafin í Herning

Opnunarhátíð EuroSkills 2025 fór fram í Jyske Bank Boxen í Herning í gærkvöldi. Íslenski landsliðshópurinn var glæsilegur þegar hann steig á svið fyrir fullri höll og stemningin var áþreifanleg. Þetta er í fimmta skipti sem Ísland tekur þátt í EuroSkills, en fyrsta þátttakan var árið 2008.

Haldið til í Lalandia

Íslenski hópurinn – keppendur, þjálfarar og yfirstjórn – hefur aðsetur í LaLandia í Billund, um 45 mínútna akstursfjarlægð frá Herning þar sem EuroSkills 2025 fer fram. Keppnissvæðið er gríðarstórt og fer keppnin fram í MCH Messecenter Herning sem telur ekki færri en 12 keppnishallir, auk Jyske Bank Boxen þar sem opnunar- og lokaathafnir fara fram.

Hópurinn kom allur til Herning mánudaginn 8. september og hefur tíminn síðan farið í að kynna sér keppnissvæðið, undirbúa básana, sækja fundi og taka þátt í opnunarhátíðinni.

Spennandi dagar framundan

Alvaran hefst í dag þegar 13 íslenskir keppendur hefja þátttöku í EuroSkills. Með hópnum eru jafnframt 13 þjálfarar sem hafa undirbúið keppendur af kappi undanfarna mánuði. Samkvæmt reglum mótsins breytast allir þjálfarar í dómara þegar keppnin hefst og dæma þá keppendur annarra landa, en ekki sína eigin.

Framundan eru þrír krefjandi og spennandi keppnisdagar þar sem íslensku fulltrúarnir takast á við fjölbreytt verkefni og öðlast ómetanlega reynslu sem nýtist þeim alla ævi.

Lokaathöfnin fer fram laugardaginn 13. september.

Previous
Previous

Brakandi stemning í Herning

Next
Next

Þrettán keppendur frá Íslandi taka þátt í EuroSkills í Danmörku